Ísland útskrifast - Samstarf Íslands og AGS um efnahagsáætlun komið á leiðarenda

Stjórn AGS samþykkti í Washington í dag síðustu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands sem þar með verður fyrsta ríkið til að útskrifast úr slíkri áætlun í yfirstandandi alþjóðafjármálakreppu.

Stjórn AGS samþykkti efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda þann 19. nóvember 2008. Með afgreiðslu stjórnarinnar í dag kemur síðasti hluti lánafyrirgreiðslunnar að upphæð 51 milljarður króna til útgreiðslu. Áður hefur verið afgreidd upphæð að jafngildi 200 milljarðar króna. Þar til viðbótar kemur lánatökuréttur frá Norðurlöndunum og Póllandi í tengslum við áætlunina samtals 150 milljarðar króna.

Samstarf Íslands og AGS  hefur vakið athygli fyrir árangur á meginsviðum. Stöðugleiki í hagkerfi náðist eftir „hinn fullkomna storm" en þannig lýsti AGS stöðunni á Íslandi í október 2008. Fjármálakerfi hefur verið reist að nýju, ríkisfjármál aðlöguð að gjörbreyttum aðstæðum og endunýjaður aðgangur ríkisins að alþjóðlegum mörkuðum var staðfestur í velheppnuðu skuldabréfaútboði í júní.   Meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar hafa náðst.