Norsk-íslenska viðskiptaráðið – Samþykktir
I: NAFN
- grein
Nafn félagsins og aðsetur
Nafn félagsins er "Norsk-íslenska viðskiptaráðið" eða Norsk-Islandsk Handelskammer (NIH). Félagið hefur aðsetur á skrifstofu Viðskiptaráðs Íslands í Reykjavík.
II: MARKMIÐ OG STARFSEMI
- grein
Markmið ráðsins er að efla og viðhalda viðskiptatengslum milli Noregs og Íslands, ásamt því að efla tengsl á sviðum menntunar, menningar, stjórnmála og viðskipta.
- grein
Í samræmi við markmið ráðsins skal það m.a. vinna að eftirfarandi:
- Skipuleggja fundi og ráðstefnur er varða almenn málefni milli landanna tveggja.
- Skipuleggja heimsóknir aðila í viðskiptalífinu til beggja landa.
- Standa vörð um viðskiptatengda hagsmuni félaga sinna gagnvart norskum og íslenskum yfirvöldum.
- Veita beina þjónustu samkvæmt ákvörðun stjórnar, þ.e. veita upplýsingar um viðskiptatengiliði, aðstoða við að koma á viðskiptatengslum á milli fyrirtækja og dreifa upplýsingum er varða viðskipti í löndunum tveimur.
III AÐILD
- grein
Eftirtaldir aðilar geta átt aðild að ráðinu:
- Einstaklingar með íslenskan eða norskan ríkisborgararétt eða einstaklingar sem reka atvinnustarfsemi í öðru hvoru ríkjanna, sem og samtök þeirra.
- Lögaðilar með fasta starfsemi eða verulegan hluta starfsemi sinnar í öðru hvoru ríkjanna, sem og samtök þeirra.
- Heiðursfélagar sbr. 6. gr.
- grein
Sækja þarf skriflega um aðild að ráðinu. Stjórn ráðsins tekur ákvörðun um aðildina.
6.grein
Stjórn ráðsins getur lagt það til við aðalfund að tiltekinn einstaklingur (einn eða fleiri) sem stuðlað hefur sérstaklega að eflingu ráðsins, markmiðum þess eða tengslum á milli landanna verði gerður að heiðursfélaga þess. Slík tillaga þarf að hljóta samþykki 2/3 hluta atkvæða viðstaddra. Heiðursfélaga skal heimilt að sitja aðalfundi félagsins með málfrelsi og tillögurétt.
- grein
Úrsögn úr ráðinu þarf að vera skrifleg og tekur gildi frá og með næstu áramótum eftir að hún berst. Úrsögn breytir engu um skyldu til greiðslu árgjalds á yfirstandandi reikningsári.
- grein
Stjórn ráðsins getur með 2/3 hluta atkvæða ákveðið að vísa aðildarfélaga úr ráðinu í sérstökum tilvikum, svo sem ef um alvarlegt brot er að ræða gegn hagsmunum ráðsins eða tilgangi þess, brot á samþykktum þess eða alvarlegt brot á landslögum eða ef vanskil eru á greiðslu árgjalds.
IV: AÐALFUNDIR OG FÉLAGSFUNDIR
9. grein
Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en 1. október ár hvert. Boðað skal til aðalfundar á tryggilegan og skriflegan hátt með minnst tveggja vikna fyrirvara. Boðun með rafrænum hætti, s.s. tölvupósti eða með tilkynningu á vefsíðu ráðsins er talin fullnægjandi.
- grein
Allir félagar sem greitt hafa árgjald eiga rétt á því að mæta á fundi ráðsins, bera fram tillögur og greiða atkvæði. Heiðursfélagar hafa sama rétt og aðrir félagar á fundum ráðsins.
- grein
Formaður stjórnar stýrir fundum ráðsins eða tilnefnir annan fundarstjóra. Fundarstjóri tilnefnir fundarritara.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Skýrsla stjórnar
- Kosning formanns
- Kosning stjórnarmanna
- Yfirferð yfir fjárhag ársins í samræmi við innheimt árgjöld
- Kynning á fjárhagsáætlun næsta rekstrarárs og ákvörðun árgjalda
- Breytingar á samþykktum
- Önnur mál
Heimilt er að breyta röð dagskrárliða með samþykki aðalfundar.
- grein
Lögmætir félagsfundir ráðsins hafa æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Stjórn ráðsins getur boðað til almenns félagsfundar með minnst viku fyrirvara. Heimilt er að boða til félagsfunda með rafrænum hætti.
V: STJÓRN
13. grein
Stjórn félagsins samanstendur af formanni og fimm til tólf stjórnarmönnum sem kjörnir eru á ársfundi til eins árs í senn. Stjórnarseta er persónubundin. Stefnt er að því að jafnmargir stjórnarmenn séu frá Noregi og Íslandi. Aðeins einn fulltrúi hvers aðildarfélags getur átt sæti í stjórn.
Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi. Séu fleiri í framboði til stjórnar en sem nemur þeim fjölda stjórnarsæta sem kosið skal um skal kosning fara fram skriflega og í einu lagi. Hver atkvæðisbær fundarmaður má greiða jafnmörgum frambjóðendum atkvæði og nemur fjölda stjórnarsæta sem kosið skal um, en heimilt er að greiða færri frambjóðendum atkvæði. Afl atkvæða ræður úrslitum en falli atkvæði jafnt skal hlutkesti ráða.
Nýkjörin stjórn skal kjósa varaformann og skipta með sér verkum að öðru leyti.
Félagar sem hyggjast bjóða sig fram til stjórnarsetu í ráðinu skulu tilkynna formanni eða framkvæmdastjóra það a.m.k. 1 viku fyrir auglýstan aðalfund.
VII: FJÁRMÁL
14. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
VII. BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM
- grein
Tillögur til breytinga á samþykktum ráðsins skulu berast stjórn í tæka tíð þannig að þær megi kynna í fundarboði aðalfundar. Ákvörðun um breytingar skal taka á aðalfundi og til að tillaga nái fram að ganga þurfa a.m.k. 2/3 hluti fundarmanna að samþykkja hana.
- grein
Tillögur um slit félagsins skulu sæta sömu meðferð og breytingar á samþykktum.
Verði ákvörðun um félagsslit samþykkt skal aðalfundur jafnframt ákveða á hvern hátt hreinni eign félagsins skuli ráðstafað. Skal við slíka ákvörðun miðað við að láta eignirnar renna til aðila sem vinnur að svipuðum markmiðum og ráðið. Aðalfundur skal jafnframt kjósa skilanefnd til þess að ganga frá skuldbindingum félagsins og ráðstafa þeim eignum sem eftir verða í samræmi við áðurnefnda ákvörðun aðalfundar.

